föstudagur, apríl 14, 2006

I know where my bones are buried - Might take me a while, but I'd find my way home..



Föstudagurinn langi.. eða eins og útlendingarnir segja: Good Friday.. Hann hefur verið bæði hjá mér hingað til, þe. góður og langur. Langur vegna þess að ég vaknaði óeðlilega snemma (níu) og góður, tja..bara vegna þess að flestir dagar eru góðir, sérstaklega frídagarnir! Ástæðan fyrir því að ég vaknaði svona snemma samt, var sú að mig dreymdi alveg hrikalega mikið. Dreymdi að ég væri fangavörður (of mikið CSI gláp) og var búin að klúðra hlutunum, fangauppreisn í gangi og það var alveg verið að fara að drepa mig þegar ég vaknaði í svitabaði og uppspennt. Ekki þægilegt að vakna svoleiðis. En var of hrædd um að hann myndi klára verkið ef ég færi aftur að sofa, þannig að ég hóf mig á lappir. :)

Búin að tala við fullt af skemmtilegu fólki í dag, hringdi t.d. í Kóala-Björn, sem var á fylleríi uppi í bústað. Alltaf gaman að tala við fullt fólk. ;) Skrítið samt að hugsa til þess að það var mið nótt heima og allir á páskadjammi og ég sat hérna í sólskininu á hádegi að hafa mig í að fara að skrifa um hvort alþjóðastofnanir þurfi enn þjóðríkið. Ahh..já, áhugavert, ég veit.. Gleðilega páska aftur Björn, takk fyrir samtalið, kannski að þú þekkir mig í síma næst! ;) Og mundu eftir kveðjunni til múttu!

Ég er semsagt komin í páskafrí, ljúft líf.. Þarf samt að skrifa eina ritgerð núna um helgina, um efnið að ofan. Ætti ekki að taka langan tíma, bara 700 orð, ég skrifa yfirleitt um 200 í hvert blogg! Veit ekki hvernig þið nennið að lesa þetta.. beyond me.. Á morgun eru svo Sigur Rósar tónleikarnir!!! Jei, er svo spennt! Er búin að mæla mér mót við aðra íslenska stelpu sem býr hérna. Ótrúlegt hvað við hópumst saman erlendis.. Stelpurnar hérna horfðu á mig eins og ég væri vangefin þegar ég sagði þeim að ég væri að fara að hitta stelpu sem ég þekki ekki neitt, bara af því að hún væri íslensk. Svo ég vitni rétt í þær: "Bloody hell, if I met an Aussie overseas I'd run as fast as I could..you people are weird.." En það verður eflaust gaman að hitta Eyrúnu, var ekki svo spennt heldur yfir að fara ein niðrí the Valley, ekki alveg öruggasta hverfið hérna í Brisbane til að vera einn síns liðs... Má reyndar ekki heldur labba ein niðrí Garden City seint á kvöldin, fólk horfir á mig eins og ég sé vangefin ef ég sting uppá því. Ég horfi bara á þau á móti og segi að það sé ekki eins og við búum í Johannesburg eða Kólumbíu, þetta er nokkuð öruggt hérna. En geri þeim samt þann greiða að fara ekki ein út á röltið á kvöldin. Enda alltaf með fólki hvort eð er.

Annars fékk ég páskaeggið mitt sem mamma sendi í gær. Held að það hafi verið markmið póstflutningamannana/kvennanna að rústa því eins mikið og hægt væri. Kom mölbrotið og það hafði bráðnað og harðnað þannig að það var súkkulaðiklessa og allt nammið sem er inní var fast í klessunni. Þurfti að gera dauðaleit að málshættinum, sem var: "Sjaldan er greinin betri en bolurinn." Hefði átt að spurja Einar áðan hvað það þýðir, því ég hef aldrei heyrt þennan málshátt áður.. Einhver? Þýðing? Fatta svona nokkurn veginn hvað það þýðir samt.. er samt greinilega búin að missa tökin á íslenskunni.. ;) Var fyrst svekkt yfir að ég fengi þá ekkert almennilegt páskaegg, en svo fór fólk að birtast hérna hægri vinstri til að færa mér súkkulaði! Mamma hennar Amy gaf mér páskakanínusúkkulaði"egg", Peta líka og líka kassa með tíu eggjum og Amy og ég keyptum okkur kassa með litlum eggjum! Flæðir allt í súkkulaði hérna í nr.35.. Unbelievable.. So no worries mate, nóg af páskasúkkulaði hérna! ;)

Signý kemur aftur í næstu viku, nánar tiltekið þann 19.apríl. Planið er að fjölmenna til Byron Bay yfir næstu helgi (ég, hún, Ólöf og Óskar) og sóla okkur aðeins og djamma. Byron Bay er svona túristastaður, á ströndinni náttúrulega og allir sem hafa farið þangað segja að það sé uppáhaldsstaðurinn þeirra í Ástralíu. Þannig að maður getur ekki annað en hlakkað til þess! Svo gæti verið að ég þurfi að "skreppa" niður til Sydney í næstu viku líka. Maður getur víst ekki kosið í Brisbane, og fjandinn hafi það ef ég ætla ekki að gera mitt til að Árni haldi áfram sem bæjó! Pabbi er líka búinn að pressa mikið á mig að fara til Sydney og kjósa, og ég geri allt fyrir þann gamla. ;) Þannig að ég fer líklega á þriðjudaginn, 1 oghálfur tími í flug, kýs og tek svo lestina til Petu sem verður í sínum heimabæ, Newcastle (einn og hálfur í lest frá Sydney), gisti hjá henni og flýg svo til baka til Brisbane daginn eftir. Húff.. það sem maður leggur ekki á sig fyrir þennan flokk! Ekki nóg að maður hafi handleggsbrotið sig fyrir hann hérna um árið, nú þarf maður að leggja undir sig ferðalög til að styðja hann í þokkabót! Annars held ég að lengsta orð sem ég hafi skrifað sé utankjörfundaratkvæðagreiðsla. Enginn vinnumannaverkamannaskúr, en þetta meikar allavega sens..!

Jæja, þetta var nú ansi skemmtileg frásögn hjá mér, eða þannig... Ætla að hundskast í bækurnar núna, sem væri auðveldara ef norsarinn fyrir neðan væri ekki að spila technotónlist á hæsta.. Spila bara HLH flokkinn á móti, það ætti að kenna honum lexíu!

Gleðilega páska elskurnar mínar! Knúsið hvort annað frá mér og verði ykkur Nóa eggin að góðu!

Kossar og knús frá Brisbane

Andí Mekk