You say I only hear what I want to...
Hvað segirðu Unnsa mín, varstu að biðja um blogg?? Ætti að geta orðið við þeirri ósk... (sorry, þetta verður samt soldið langt hjá mér..!)
Nýkomin heim úr skólanum og er að teygja lopann áður en ég opna bækurnar. Þarf nefnilega að klára að læra í dag, því í kvöld er O.C. og ég missi sko ekki af því!! Nó vei Hósei!
Háskólinn minn hérna er þannig séð ekki svo ólíkur HÍ að mörgu leiti. Fyrir utan að hann er náttúrulega miklu stærri og skiptist niður í fimm campusa, fjórir þeirra eru hér í Brisbane og einn "niðri" á Gold Coast. Ég er á campus sem heitir Nathan og er elsti campusinn af þessum fimm og jafnframt sá stærsti. Nú man ég ekki nákvæmlega hvað ég var búin að segja ykkur frá honum, en allavega þá er allt til alls hérna. Það er hægt að búa on-campus, ef maður vill en íbúðirnar/herbergin þar eru lítilfjörleg að mér skilst. Það eru allavega fimm kaffihús að ég held og bar auðvitað líka. Það er banki, hárgreiðslustofa, pósthús, ferðaskrifstofa og litlar matvöruverslanir líka. Campusinn er inní miðjum skóg þannig að þú sérð ekki mikið meira en byggingarnar og svo bara guðsgræna náttúruna í kring. Það er harðlega mælt gegn því að maður labbi úti skóginn því þar er allt frá snákum, eðlum og öðrum kvikindum sem væri miður skemmtilegt að hitta, þó að ég sé nokkuð viss um að ekkert af þeim sé baneitrað eða neitt þannig, bara betra að forðast þetta heldur en að fara of nálægt! ;)
Típískur skólaklæðnaður er á við það sem við myndum klæðast í sólarferðum okkar á sumrin. Stelpurnar klæðast yfirleitt hlýrabolum, stuttum pilsum eða "hot-pants" (mjög stuttum stuttbuxum). Strákarnir eru í stuttbuxum, bolum og yfirleitt með derhúfu líka. Kennararnir eru klæddir á sama hátt, sem mér fannst reyndar erfiðara að venjast heldur en hinu, þeir mæta í stuttbuxum og sandölum, eins og þeir ætli að skreppa niðrá strönd eftir tímann. Er búin að venjast þessu núna, þetta er bara normið hérna, það eru allir mjög afslappaðir, bæði í klæðnaði, hegðun og öllu bara. Maður labbar t.d. út á stoppistöð á morgnanna og ef einhver stendur þar fyrir er ekki óalgengt að sá sami heilsi þér um leið og þú kemur að og segir "Hiya, how's it going?" Mér brá verulega fyrst þegar þetta gerðist og var ýkt lengi að spá hvort ég hefði hitt viðkomandi manneskju áður!
Annað er að það ganga ALLIR í flip-flops hérna, sem eru reyndar kallaðir Thongs hér í OZ. Eina fólkið sem ég hef ekki séð ganga í svoleiðis eru skólakrakkarnir en þau fá svaka klossa við búningana sína sem þau þurfa að ganga í. Og ég vorkenni þeim ekkert smá því það hlýtur að vera hell að vera í lokuðum skóm í þessum hita.
Talandi um veðrið, þá hef ég bara ekkert verið svo heppin með það undanfarið! Rigndi endalaust frá fimmtudegi og til sunnudags, þvílíkri hlussurigningu að maður komst vart út úr húsi. Minnti mig á gamla góða Ísland. Það er samt að skána núna, þótt sólin hafi ekki mikið látið sjá sig þá er allavega hætt að rigna! Veit samt að þið vorkennið mér ekki þó ég röfli um veðrið!! Því þrátt fyrir þetta hefur hitinn ekki farið niður fyrir 22 gráðurnar...
Vá, þetta hlýtur að vera orðið ansi leiðinlegt blogg hjá mér.. en ætla að segja ykkur hvað kom fyrir mig í morgun áður en ég hætti..
Ég fór semsagt í tíma í morgun klukkan níu og sat þar og glósaði af djöfulmóð eins og vanalega. Af og til kitlaði mig í hálsinn, en ég hélt bara að hárið á mér væri að flaksast útaf loftkælingunni. Fékk þó nóg að lokum og ætla að fara að festa hárið upp til að losna við þetta þegar ég finn að eitthvað dettur niðrá bringuna á mér og endar í brjóstaskorunni. Lít niður og er þá ekki ógeðslegasta skordýrskvikindi á mér! Fæ hroll þegar ég skrifa þetta meira að segja.. Gult kvikindi með sjö milljón lappir og rauðan haus..jakk. Ég náttla kippist við og þrusa kvikindinu uppúr og var næstum búin að kasta því í næsta mann en það flaug sem betur fer yfir hann og lenti á tröppunni. Hjúkkit. Hjartað á mér á milljón af því að mér brá svo og ég vona að enginn hafi tekið eftir þessu því viðbrögðin hafa vafalaust verið skopleg. Róa mig aðeins niður og byrja að fylgjast með fyrirlestrinum aftur en lít svo niður tveimur mínútum seinna og brá ennþá meira. Sá gommu af einhverju brúnrauðleitu gumsi á mér og ég hélt kannski að helvítis kvikindið hefði náð að "losa sig" á mig áður en ég gat fleygt honum af og fékk viðbjóðshroll við hugsunina. En ég hafði víst kramið ógeðið í óðagotinu og greinilega tæmt hann af líkamlegum vökvum og skilið þá eftir í brjóstaskorunni! annað jakk.. Ég byrja náttúrulega að reyna að þrífa ógeðið af, sem var erfitt því ég var ekki með tissjú eða neitt þannig að ég sit þarna með hendurnar á milli brjóstanna í miðjum fyrirlestri meðal 300 nemenda að reyna að þrífa af mér skordýrablóð. Guð, ég vona að enginn hafi verið að horfa á mig, very embarrasing!! Átti náttla bágt með að einbeita mér eftir þetta því mér klæjaði allsstaðar og beið bara eftir að systir ógeðisins myndi ráðast á mig í hefndarskyni fyrir bróður sinn, sem var þó ekki dauður þrátt fyrir blóðleysið því ég fylgdist með honum skríða burt á tröppunni! Sem var synd, því Bruce var að tala um útbreiðslu Víkinganna í Evrópu og Ísland kom til tals tvisvar og ég hefði viljað getað einbeitt mér að því sem hann var að segja..
En nú þarf ég að fara að baða mig í klór, eða að minnsta kosti fara í mjög heita sturtu og reyna að losa mig við klígjuna af þessu atviki.
Góðar stundir.
<< Home