fimmtudagur, mars 02, 2006

Blow up day!

Jæja, kannski kominn tími til að skrifa eitthvað! Vonandi mun þessi eini Carlsberg sem ég innbyrti áðan hrekja burt ritstífluna sem ég hef þjáðst af undanfarið..! ;)

Ég er sest aftur á skólabekk og líkar það bara prýðisvel. Kennslufyrirkomulag er keimlíkt því sem gengur og gerist heima á Fróni þannig að það er nú ekki mikið sjokk þar á bæ. Þetta gengur þannig fyrir sig að ég er skráð í fjóra kúrsa og í hverjum þeirra er fyrirlestur (lecture) og umræðutími? (tutorial) einu sinni í viku. Breytilegt samt, en ykkur er líklega ****sama um smáatriðin! Það eru um 400 manns skráðir í hvern kúrs og svo er okkur skipt niður í tutorial tímana þannig að það eru um 30 manns í hverjum og einum svoleiðis. Annars eru góðu fréttirnar þær að ég þarf bara að fara í eitt lokapróf, en þær slæmu eru þær að ég þarf að skila einhverjum tuttugu verkefnum rúmlega yfir önnina.. En nóg um skólann, er nógu stressuð fyrir honum nú þegar!!
(þessi carlsberg er ekki að gera sig, finn ekkert skemmtilegt að segja..)

Í kvöld fór ég í fyrsta sinn í ástralskt kvikmyndahús í fylgd með öðru fólki. Fór með stelpunum (Amy og Aliciu sem ég bý með og Pedru sem býr fyrir neðan okkur) á myndina Just Friends. Einkennilegt að fara með öðrum í bíó hérna, var orðin frekar vön því að fara ein.. Eftir myndina kom upp sú spurning frá Amy (nenni ekki að fara út í formálann að henni hérna) hvort ég hefði nokkurn tíman "dottið í það".. Það var mjög freistandi að beygja sannleikann örlítið og segja nei, það er ekki til áfengi á íslandi! (mjög alvarleg á svip auðvitað) en ég hefði aldrei náð að halda aftur hlátrinum þannig að ég viðurkenndi að ég hefði "einu sinni eða tvisvar" fengið mér fjóra bjóra.. ;) Held að hún eigi eftir að fylgjast náið með mér næstu helgi í Australia partíinu til að sjá til þess að ég fari ekki algjörlega yfir strikið.. ;) Pedru fannst þetta hinsvegar hið skoplegasta mál og lagði til að þær færu með mig beint heim og helltu mig fulla, bara til að sjá hvernig Íslendingar væru drukknir. (Bið alla Íslendinga afsökunar fyrirfram á því hvernig álit Ástrala á okkur á eftir að vera eftir næstu helgi..ég er ekki besti kandítatinn til að halda kúlinu eftir nokkur glös..gefið að ég hafi haft nokkuð fyrir, sem er langt frá því sjálfgefið)
Það var einnig mjög skoplegt þegar ég reyndi að útskýra fyrir Amy að foreldrar mínir hefðu hringt í mig í tilefni af Sprengideginum. (Hringdu reyndar ekkert í tilefni af honum, held að þau hafi bara haft lúmskt gaman af því að vekja mig fyrir allar aldir og minna mig á eina viðbjóðslegustu kvöldmáltíð sem tíðkast á íslenskum heimilum (þorramatur undanskilinn)) Allavega, þá gerðu voru útskýringar á borð við Ball Day og Blow-up Day lítið til að fá Amy ofan af því áliti sínu að Íslendingar séu í raun villimenn. Held að hún hafi ekki séð mikinn tilgang í því að tileinka heilan dag á ári því að éta "cream balls" og fylgja því svo eftir með því að fá meatballs og "fish balls" í kvöldmat. Blow-up Day bætti svo ekki um betur, salted meat and peasoup verða líklega ekki á matseðlinum hjá henni á næstunni. Það varð mér þó til happs að Öskudagur er mun auðveldari viðureignar, því hver skilur ekki hugmyndina á bak við Halloween? Náði að bjarga allmiklu með því... Ég verð samt líklega seint ráðin í að semja túristabæklinga fyrir Ísland, það er á kristaltæru!

Nenni ekki að segja ykkur meira, líf mitt er ekki endalaust opin bók!! ;) Klukkan er líka að verða tvö þannig að ég ætti líklega að fara að sofa.. Ætti líka að vakna snemma og fara að læra á morgun, en af biturri reynslu veit ég að það mun líklega ekki gerast á þessari öld... ;)
Fair dinkum mate!