Trying to get some explanation here.. For the way some people are..

Jæja kæra fólk, þetta verður langt og safaríkt (vonandi) og ég vil bara láta ykkur vita áður en þið hefjið lesturinn að það er í fínu lagi með okkur öll þrátt fyrir drama helgarinnar!
Ok, day one: Við (ég, Signý og Óskar) lögðum af stað til Byron Bay á föstudaginn um hádegið. Leigðum okkur bíl og fínerí og keyrðum úr steikjandi hitanum í Brisbane norður í átt til Byron Bay. Rétt rúmum tveimur tímum seinna vorum við komin á áfangastað og eyddum restinni af deginum á ströndinni í að brjóta áströlsk lög með því að sötra þar bjór. Ákváðum svo að tjekka á næturlífinu í Byron Bay og skelltum okkur á vinsælasta barinn í távninu, Cheeky Monkees. Mér leið eins og ég væri komin hátt á sextugsaldurinn þarna inni. Pakkað af átján ára krökkum í fríi, allir á perunni ef ekki meira, dansandi uppá borðum og strippandi. Stuð. Fórum frekar snemma heim þar sem við vorum óendanlega þreytt og ekki í þessu stuði heldur...
Day Two: Þar sem það var frekar slappt strandarveður (svindl, þar sem þetta er algjör strandarbær!) ákváðum við að fara í road trip. Signý var víst búin að frétta af einhverjum hippabæ sem átti að vera rétt hjá (ath.rétt hjá í ástralskri meiningu getur verið allt frá korteri upp í fjóra tíma) og við brunuðum þangað. Kósí bær, svona típísk Kristjanía ef þið fattið. Okkur var boðið að kaupa hass/gras nokkuð oft á þessu rúmu klukkutíma stoppi þarna. Held að þið vitið flest hversu mikið ég er á móti slíku, þrátt fyrir að mér hafi þótt gaman að koma þarna samt. Það var sérstaklega gaman að fylgjast með Signýju frænku sem labbaði uppað öllum og bað um að fá að taka mynd af þeim og það fyndnasta var þegar einn gaurinn svaraði henni með þessu kommenti: "I feel like a koala when you ask me that.." hehe.. Signý hló bara (innskot, hún er að læra ljósmyndun í NZ og það er aðalástæðan fyrir að hún var að mynda fólkið/hippana). Eftir að hafa stoppað í Nimbin, eða það heitir bærinn, ákváðum við að keyra aðeins út í alvöru ástralska sveit, sem endaði með fullri frumskógarferð. Þau stoppuðu á nokkrum stöðum til að taka myndir, sem ég held að hafi bara tekist ágætlega. Samt fjári ógnvekjandi að vera keyra í miðjum skógi í niðamyrkri þegar við vorum á leið heim. Einhver hafði það á orði að þetta væri eins og Blair Witch project... En við komumst til baka heil á húfi og tókum því rólega restina af kvöldinu. Við Signý rifjuðum upp sögur úr æsku okkar, eins og td. ljósaleikinn, þegar við Dagný létum Signýju og Nonna fara niður stigann á Smyrlahrauninu á dótabíl (við vorum ekkert alltof góðar við þau tvö!) og fleiri skemmtilegar sögur. Held að Óskari langi ekkert til að hitta móðurfjölskylduna okkar eftir þetta kvöld! ;)
Day Three: Héreftir nefndur dramadagurinn þrátt fyrir að hann hafi nú byrjað ósköp vel. Sóluðum okkur aðeins á ströndinni áður en við lögðum í hann og slöppuðum af. Það var á planinu að stoppa aðeins á leiðinni og skoða okkur um, en það varð ekkert úr því fyrr en við komum til Surfers Paradise þar sem við stoppuðum til að fá okkur í svanginn. Eftir matinn ætluðum við að kíkja aðeins á ströndina þar og halda svo áfram. Keyrðum af stað en þegar við beygjum til að fara að ströndinni veit ég ekki fyrr en ég stari beint framan á VW Polo sem er að koma á 60km hraða svona meter frá mér. (Til útskýringar; ég sat afturí farþega megin, Signý fyrir framan mig og Óskar var að keyra, sjá meðfylgjandi mynd)
Ég tók víst andköf samkvæmt Signýju (þau sáu ekki bílinn) og svo klessir Poloinn á hurðina mína af fullum krafti og ég finn bara hvernig hún rekst í vinstri hliðina á mér og höfuðið á mér er eins og það sé að fara að springa. Jafna mig samt fljótlega, fólk kemur að hjálpa, ýtir bílnum útaf veginum og þvingar upp hurðina hjá mér svo við komumst út. Enginn alvarlega slasaður sem betur fer, en löggan kemur og sjúkrabíll líka. Við Signý fórum í tjekk á spítalanum þar sem að hún var með hálsverki (og ég reyndar líka þegar við komumst á spítalann). Við vissum vart hvort við ættum að hlægja eða gráta þar sem Signý þá á börum í sjúkrabílnum og ég sat hjá henni og vissum ekkert hvað við ættum að gera. Eftir þrjá tíma á sjúkrahúsinu (þar sem tveir og hálfur fóru allavega í bið, gott að okkur var ekki að blæða út!) var okkur sagt að við værum í lagi og mættum fara heim. Þá tók meira vesen við. Þurftum að komast að bílnum okkar þar sem að dótið okkar var enn í honum og okkur hafði verið sagt að það yrði nýr bíll tilbúinn við hliðina. Svo var ekki. Klukkan orðin hálfníu að kvöldi, við föst í Gold Coast (klukkutíma frá Brisbane) og með engan bíl. Það besta í stöðunni var að taka þá leigara að lestarstöðinni og ná lest til Brisbane. Þá kom í ljós að það var verið að vinna í lestarteinunum og við þurftum því að taka rútu frá þeirri lestarstöð að næstu sem "virkaði". Ok, um hálftíu vorum við komin í lest á leið til Brisbane og allt í þannig séð góðu. Nema hvað, dráttarbílagaurinn sagði mér að það væri best ef ég færi út í Sunnybank og kæmist þaðan heim. Ég tók hann trúanlegan þar sem að ég hafði ekki komið í Sunnybank og vissi því ekki hvar það hverfi væri nákvæmlega. En út fór ég og Signý og Óskar héldu áfram niðrí South Bank þar sem var bara mínútu gangur heim til Ólafar þar sem þau gista. Ég labbaði hins vegar út af lestarstöðinni og fékk sjokk. Það var nákvæmlega ekkert nálægt. Nokkur íbúðarhús, and that was about it. Ok, mín lætur ekki bugast svo auðveldlega, þannig að ég hysja upp farangurinn og held af stað. Vissi ekki í hvaða átt ég ætti einu sinni að fara, hvað þá hvar ég væri nákvæmlega, síminn batteríslaus, þannig að ég labbaði bara í átt að umferðarhljóðum í von um að finna leigubíl. Labbaði allavega í hálftíma í niðamyrkri í hverfi sem ég þekki ekki neitt, að pissa á mig af hræðslu, en sá Dómínós skilti í fjarska og ákvað að labba í átt að því. Skynsamlegt þar sem að þar á horninu fann ég "tíkalla"síma og gat hringt á leigubíl (guði sé lof að ég mundi númerið!). Eftir ca. tíu mínútna bið þar sem ég var nánast farin að skæla af hræðslu (það er mjög óskynsamlegt að vera ein úti klukkan ellefu um kvöld í svona fáförnu hverfi) kom loksins leigubílinn. Ég grét næstum af feginleika. Það kom svo í ljós á leiðinni að Sunnybank er ekki beint nálægt mínu hverfi þannig séð, hefði frekar átt að fara með Signýju og Óskari niðrí South Bank og taka leigubíl þaðan, sem hefði verið miklu auðveldara og öruggara. Komst loksins heim til mín um ellefu í gærkvöldi, eftir tíu tíma ferð (sem tekur venjulega tvo tíma). Hef aldrei verið eins fegin að koma til Genesis 1, svo mikið get ég sagt ykkur! Fór beint í sturtu þar sem ég uppgvötaði risakúlu á hausnum á mér og eftir smá spjall við m&p fór ég uppí rúm og svaf svefni hinna réttlátu til sex í morgun þegar ég þurfti að fara í skólann. Er svo aum í öllum líkamanum í dag að ég get vart gengið, verkjar alls staðar og ég held að ég hafi snúið á mér ökklann í þokkabót á göngunni heim í gærkvöldi. Það á ekki af manni að ganga! Er svo búin að sofa í mest allan dag eftir að ég kom heim úr skólanum. Er svo fegin að það sé frídagur á morgun þannig að ég geti hvílt mig hérna heima í stað þess að fara í skólann. Ef mér leið eins og sextugri á barnum, þá líður mér eins og áttræðri eftir þessa helgi!
En við erum öll heil á húfi, sem er fyrir öllu, veit ekki hvað ég hefði gert ef eitthvað mikið hefði komið fyrir Signýju...
Jæja, held að þetta sé orðið ansi langt hjá mér í dag, ætla að segja staðar numið. :)
Take care good folks!