mánudagur, apríl 24, 2006

Trying to get some explanation here.. For the way some people are..


Jæja kæra fólk, þetta verður langt og safaríkt (vonandi) og ég vil bara láta ykkur vita áður en þið hefjið lesturinn að það er í fínu lagi með okkur öll þrátt fyrir drama helgarinnar!

Ok, day one: Við (ég, Signý og Óskar) lögðum af stað til Byron Bay á föstudaginn um hádegið. Leigðum okkur bíl og fínerí og keyrðum úr steikjandi hitanum í Brisbane norður í átt til Byron Bay. Rétt rúmum tveimur tímum seinna vorum við komin á áfangastað og eyddum restinni af deginum á ströndinni í að brjóta áströlsk lög með því að sötra þar bjór. Ákváðum svo að tjekka á næturlífinu í Byron Bay og skelltum okkur á vinsælasta barinn í távninu, Cheeky Monkees. Mér leið eins og ég væri komin hátt á sextugsaldurinn þarna inni. Pakkað af átján ára krökkum í fríi, allir á perunni ef ekki meira, dansandi uppá borðum og strippandi. Stuð. Fórum frekar snemma heim þar sem við vorum óendanlega þreytt og ekki í þessu stuði heldur...
Day Two: Þar sem það var frekar slappt strandarveður (svindl, þar sem þetta er algjör strandarbær!) ákváðum við að fara í road trip. Signý var víst búin að frétta af einhverjum hippabæ sem átti að vera rétt hjá (ath.rétt hjá í ástralskri meiningu getur verið allt frá korteri upp í fjóra tíma) og við brunuðum þangað. Kósí bær, svona típísk Kristjanía ef þið fattið. Okkur var boðið að kaupa hass/gras nokkuð oft á þessu rúmu klukkutíma stoppi þarna. Held að þið vitið flest hversu mikið ég er á móti slíku, þrátt fyrir að mér hafi þótt gaman að koma þarna samt. Það var sérstaklega gaman að fylgjast með Signýju frænku sem labbaði uppað öllum og bað um að fá að taka mynd af þeim og það fyndnasta var þegar einn gaurinn svaraði henni með þessu kommenti: "I feel like a koala when you ask me that.." hehe.. Signý hló bara (innskot, hún er að læra ljósmyndun í NZ og það er aðalástæðan fyrir að hún var að mynda fólkið/hippana). Eftir að hafa stoppað í Nimbin, eða það heitir bærinn, ákváðum við að keyra aðeins út í alvöru ástralska sveit, sem endaði með fullri frumskógarferð. Þau stoppuðu á nokkrum stöðum til að taka myndir, sem ég held að hafi bara tekist ágætlega. Samt fjári ógnvekjandi að vera keyra í miðjum skógi í niðamyrkri þegar við vorum á leið heim. Einhver hafði það á orði að þetta væri eins og Blair Witch project... En við komumst til baka heil á húfi og tókum því rólega restina af kvöldinu. Við Signý rifjuðum upp sögur úr æsku okkar, eins og td. ljósaleikinn, þegar við Dagný létum Signýju og Nonna fara niður stigann á Smyrlahrauninu á dótabíl (við vorum ekkert alltof góðar við þau tvö!) og fleiri skemmtilegar sögur. Held að Óskari langi ekkert til að hitta móðurfjölskylduna okkar eftir þetta kvöld! ;)
Day Three: Héreftir nefndur dramadagurinn þrátt fyrir að hann hafi nú byrjað ósköp vel. Sóluðum okkur aðeins á ströndinni áður en við lögðum í hann og slöppuðum af. Það var á planinu að stoppa aðeins á leiðinni og skoða okkur um, en það varð ekkert úr því fyrr en við komum til Surfers Paradise þar sem við stoppuðum til að fá okkur í svanginn. Eftir matinn ætluðum við að kíkja aðeins á ströndina þar og halda svo áfram. Keyrðum af stað en þegar við beygjum til að fara að ströndinni veit ég ekki fyrr en ég stari beint framan á VW Polo sem er að koma á 60km hraða svona meter frá mér. (Til útskýringar; ég sat afturí farþega megin, Signý fyrir framan mig og Óskar var að keyra, sjá meðfylgjandi mynd)

Ég tók víst andköf samkvæmt Signýju (þau sáu ekki bílinn) og svo klessir Poloinn á hurðina mína af fullum krafti og ég finn bara hvernig hún rekst í vinstri hliðina á mér og höfuðið á mér er eins og það sé að fara að springa. Jafna mig samt fljótlega, fólk kemur að hjálpa, ýtir bílnum útaf veginum og þvingar upp hurðina hjá mér svo við komumst út. Enginn alvarlega slasaður sem betur fer, en löggan kemur og sjúkrabíll líka. Við Signý fórum í tjekk á spítalanum þar sem að hún var með hálsverki (og ég reyndar líka þegar við komumst á spítalann). Við vissum vart hvort við ættum að hlægja eða gráta þar sem Signý þá á börum í sjúkrabílnum og ég sat hjá henni og vissum ekkert hvað við ættum að gera. Eftir þrjá tíma á sjúkrahúsinu (þar sem tveir og hálfur fóru allavega í bið, gott að okkur var ekki að blæða út!) var okkur sagt að við værum í lagi og mættum fara heim. Þá tók meira vesen við. Þurftum að komast að bílnum okkar þar sem að dótið okkar var enn í honum og okkur hafði verið sagt að það yrði nýr bíll tilbúinn við hliðina. Svo var ekki. Klukkan orðin hálfníu að kvöldi, við föst í Gold Coast (klukkutíma frá Brisbane) og með engan bíl. Það besta í stöðunni var að taka þá leigara að lestarstöðinni og ná lest til Brisbane. Þá kom í ljós að það var verið að vinna í lestarteinunum og við þurftum því að taka rútu frá þeirri lestarstöð að næstu sem "virkaði". Ok, um hálftíu vorum við komin í lest á leið til Brisbane og allt í þannig séð góðu. Nema hvað, dráttarbílagaurinn sagði mér að það væri best ef ég færi út í Sunnybank og kæmist þaðan heim. Ég tók hann trúanlegan þar sem að ég hafði ekki komið í Sunnybank og vissi því ekki hvar það hverfi væri nákvæmlega. En út fór ég og Signý og Óskar héldu áfram niðrí South Bank þar sem var bara mínútu gangur heim til Ólafar þar sem þau gista. Ég labbaði hins vegar út af lestarstöðinni og fékk sjokk. Það var nákvæmlega ekkert nálægt. Nokkur íbúðarhús, and that was about it. Ok, mín lætur ekki bugast svo auðveldlega, þannig að ég hysja upp farangurinn og held af stað. Vissi ekki í hvaða átt ég ætti einu sinni að fara, hvað þá hvar ég væri nákvæmlega, síminn batteríslaus, þannig að ég labbaði bara í átt að umferðarhljóðum í von um að finna leigubíl. Labbaði allavega í hálftíma í niðamyrkri í hverfi sem ég þekki ekki neitt, að pissa á mig af hræðslu, en sá Dómínós skilti í fjarska og ákvað að labba í átt að því. Skynsamlegt þar sem að þar á horninu fann ég "tíkalla"síma og gat hringt á leigubíl (guði sé lof að ég mundi númerið!). Eftir ca. tíu mínútna bið þar sem ég var nánast farin að skæla af hræðslu (það er mjög óskynsamlegt að vera ein úti klukkan ellefu um kvöld í svona fáförnu hverfi) kom loksins leigubílinn. Ég grét næstum af feginleika. Það kom svo í ljós á leiðinni að Sunnybank er ekki beint nálægt mínu hverfi þannig séð, hefði frekar átt að fara með Signýju og Óskari niðrí South Bank og taka leigubíl þaðan, sem hefði verið miklu auðveldara og öruggara. Komst loksins heim til mín um ellefu í gærkvöldi, eftir tíu tíma ferð (sem tekur venjulega tvo tíma). Hef aldrei verið eins fegin að koma til Genesis 1, svo mikið get ég sagt ykkur! Fór beint í sturtu þar sem ég uppgvötaði risakúlu á hausnum á mér og eftir smá spjall við m&p fór ég uppí rúm og svaf svefni hinna réttlátu til sex í morgun þegar ég þurfti að fara í skólann. Er svo aum í öllum líkamanum í dag að ég get vart gengið, verkjar alls staðar og ég held að ég hafi snúið á mér ökklann í þokkabót á göngunni heim í gærkvöldi. Það á ekki af manni að ganga! Er svo búin að sofa í mest allan dag eftir að ég kom heim úr skólanum. Er svo fegin að það sé frídagur á morgun þannig að ég geti hvílt mig hérna heima í stað þess að fara í skólann. Ef mér leið eins og sextugri á barnum, þá líður mér eins og áttræðri eftir þessa helgi!
En við erum öll heil á húfi, sem er fyrir öllu, veit ekki hvað ég hefði gert ef eitthvað mikið hefði komið fyrir Signýju...
Jæja, held að þetta sé orðið ansi langt hjá mér í dag, ætla að segja staðar numið. :)
Take care good folks!

miðvikudagur, apríl 19, 2006

Someone tell me where did it go.. Darling I'm damned if i know..


Sumir fengu lit í dag! ;) Ég og Peta fórum á ströndina í Newcastle í dag, eins og sést á myndinni og ég er orðin í stíl við foreldra mína, rauð og smekkleg..!

Jebbserí, komin aftur heim..ekki "heim" í alvöru skilningi orðsins, heldur í tímabundinni merkingu. (Vá, er bara að taka eftir því núna hvað nefið á mér er fáránlegt, takiði eftir því á myndinni? Eða hefur það alltaf verið svona og enginn hefur sagt mér það??) Anyways, much needed nose-job aside, þá var ferðin mín mjög skemmtileg. Held að ég hafi sjaldan hlegið jafn mikið á einum sólarhring (miðað við það að hafa verið blá edrú allan tímann!) Vaknaði á ónáttúrulegum tíma, klukkan fimm í gærmorgun og skellti mér í flug. Eftir típískt vesen hjá yfirvöldunum (held að það hvíli bölvun á mér) komst ég til stórborgarinnar. Stoppaði hjá henni Sigrúnu konsúl í ca. klukkutíma á spjallinu bara og afgreiddi D-ið mitt þannig að það getur enginn sagt að ég geri ekki mitt í þágu flokksins! Fáránlegt að skrifa einn bókstaf á blað, loka það svo inni í þremur umslögum með innsiglum og látum og fara svo og setja það sjálf í póst! Rölti svo um Sydney, fór í útsýnistúr upp í Sydney Tower og borðaði forframaðan hádegisverð á KFC. Mjög skrítið að koma þangað aftur (Sydney sko, ekki KFC) fór alveg langt aftur í tímann í huganum. Labbaði meira að segja framhjá hostelinu sem ég var á síðast, bara fyrir húmorinn. Já, það þarf lítið til að skemmta ljóskunni í útlöndunum! ;) Hoppaði svo uppí lest til Newcastle sem tók hátt í þrjá tíma. Gott að mér finnst gaman í lestum, þó að salernin í þeim séu nú kannski ekki efst á vinsældarlistanum hjá mér! Held að ég sé andlega sködduð eftir þá reynslu..*ógeðishrollur* Sigur Rós í geislaspilaranum, ástralskt landslag (sem felst að mestu í trjám og öðrum gróðri) og sms til Petu á fimm mínútna fresti.
Hér kemur dæmi..
Peta: Where are you now?
Andrea: In some hillbilly nowhere town with weird horses who are wearing capes, and LOTS of trees! ;)
ah..stytti mér stundirnar allavega..! ;)
Mamma hennar og pabbi tóku svo á móti mér með svaka veislu, ekta ástralskt bbq (engar rækjur samt!) Ég bondaði við hundinn hennar, Sootie (correct spelling Petey?), en kötturinn Milo var held ég enn geðveikari heldur en hann Keli minn heitinn.. Foreldrar hennar eru æði, tóku rosalega vel á móti mér og létu mér líða eins og heima. Horfðum á Day after Tomorrow um kvöldið, sem Petu fannst fyndið því hún var viss um að það myndi minna mig á ástandið heima! (verðið að hafa séð myndina til að fatta þetta..) Í dag fóru þær mæðgur svo með mig í smá sightseeing túr um Newcastle, sem var mjög gaman. Kíktum á ströndina, löbbuðum um downtownið og borðum lunch á bryggjubakkanum. (Sjá myndir ef þær öpplódast einhvern tímann!)
Á morgun er svo planið að reyna að hitta "litlu" frænku og eyða smá tíma með henni og co. Er samt enn ekki búin með fjandans ritgerðina, en það kemur að lokum.. Þau (Signý og Óskar) eru víst búin að bóka hótel og bíl fyrir Byron Bay ferðina okkar sem hefst stundvíslega klukkan tíu á föstudagsmorguninn. Óskar ætlar að keyra víst.. hey, better him than me! myndi ekki meika vinstri umferðina hérna! Ætla að safna meiri rauðum lit um helgina og drekka helling af XXXX Gold! Hey, ég verð líka að fá að fagna tíu ára fermingarafmælinu mínu eins og allir eru að fara að gera heima...!
Ég er að gera mitt besta með myndirnar, er að hlaða þeim inn á síðuna núna, tekur bara svo langan tíma...og ég er þreytt..það tekur á að leika sér á ströndinni krakkar mínir!

Vil svo í lokin gefa elskulegum föðurbróður mínum, Víði, stórt klapp á bakið og hrós fyrir nýju Fréttaveituna! Sá nýjasta tölublaðið á HS síðunni og ég verð að segja að hún hefur aldrei litið betur út! Hlakka til að sjá hana læv, ekki eins að sjá þetta í abdobe reader. En þetta er geðveikt flott hjá þér Víðir, enda ekki við öðru að búast af snillingi eins og þér! (Ps. finndu nýrri myndir til að setja af pabba í greinarnar sem hann skrifar, sama hvað hann vill trúa því, þá er hann gráhærðari núna heldur en hann var fyrir tíu árum þegar þessi mynd var tekin! Enga afbökun á sannleikanum takk fyrir! ;) )

Sólarkveðjur frá Brisbane!
Andie McTanned

mánudagur, apríl 17, 2006

Are you lonesome tonight...?



I feel so abandoned.. Það eru allir farnir heim til sín og ég sit hérna ein að hlusta á þvottavélina.. hring eftir hring eftir hring.. stuð. Annars verð ég nú ekki ein lengi, flýg til fallegu borgarinnar í suðri, Sydney eldsnemma í fyrrmálið! Jesssörrí.. það verður eflaust skrítið að koma þangað aftur, einu og hálfu (circa..) ári síðar. Og á allt öðrum forsendum. Var einmitt að hugsa það í dag hvort það væri eitthvað sem ég ætti eftir að sjá þar og er að spá í að skella mér uppí Sydney Tower ef ég hef tíma. Það er svona útsýnisturn þar sem maður sér yfir alla Sydney. Fór ekki þangað síðast... Nema ég endi í búðunum, sem ég ætla fyrir alla muni að forðast! Nema ég klári ritgerðina í kvöld (bjartsýni, er bara búin með innganginn) þá verðlauna ég mig kannski smá.. ;)

Tek svo lestarkvikindið til Petu og fæ að gista hjá henni (ávallt hagsýnn námsmaður!) Skottúr, en verður án efa skemmtilegur :) Tek myndavélina með, og skal REYNA að taka myndir og aktúallí að setja þær inn líka ;) Mamma var allavega að pressa á mig með það..

Páskarnir mínir hafa verið mjööööög rólegir, búin að sitja og stara á tölvuna að reyna að koma einhverju á blað, en hefur ekki tekist neitt rosalega vel.. Fór á Sigur Rósar tónleikana á laugardagskvöldið og þeir voru fantagóðir eins og ávallt. Ekki eins góðir og í Laugardalshöllinni fyrir jól, en það er nú erfitt líka að toppa þá frammistöðu. Svo var líka vesen með hljóðið hjá þeim fyrripartinn af tónleikunum, en var nokkurn veginn komið í lag undir lokin. Ástralirnir heyrðu allavega engan mun, miðað við fagnaðarlætin í lokin. Fyndnast fannst mér að gaur sem stóð rétt hjá mér var sífellt að öskra: Jónsi! Jónsi! (hann var á perunni sko, gaurinn, ekki Jónsi..held ég allavega..) Veit ekki hvað það átti að áorka, hvort hann bjóst við að Jónsi myndi hoppa niður af sviðinu og koma og tala við hann eða bjóða honum uppá bjór.. En allt í allt, góðir tónleikar og skemmtilegt kvöld. Var samt alveg búin á því þegar ég loksins komst heim, þurftum að labba töluvert til að finna leigara og á einum tímapunkti var mér boðið 5 dollara fyrir..tja, það eru ung börn að lesa þetta líka, förum ekki lengra útí það! ;) Skuggalegt hverfi, sagði ykkur það!

Jæja, nágrannar eru að byrja, skuggalega spennandi, myndi segja ykkur hvað er að gerast, en við erum náttúrulega ljósárum á undan þáttunum heima þannig að ég ætla nú ekki að kjafta frá öllu.. ;)

Skrifa ferðasögu þegar ég kem frá Sydney, until then, cheers mates!

föstudagur, apríl 14, 2006

I know where my bones are buried - Might take me a while, but I'd find my way home..



Föstudagurinn langi.. eða eins og útlendingarnir segja: Good Friday.. Hann hefur verið bæði hjá mér hingað til, þe. góður og langur. Langur vegna þess að ég vaknaði óeðlilega snemma (níu) og góður, tja..bara vegna þess að flestir dagar eru góðir, sérstaklega frídagarnir! Ástæðan fyrir því að ég vaknaði svona snemma samt, var sú að mig dreymdi alveg hrikalega mikið. Dreymdi að ég væri fangavörður (of mikið CSI gláp) og var búin að klúðra hlutunum, fangauppreisn í gangi og það var alveg verið að fara að drepa mig þegar ég vaknaði í svitabaði og uppspennt. Ekki þægilegt að vakna svoleiðis. En var of hrædd um að hann myndi klára verkið ef ég færi aftur að sofa, þannig að ég hóf mig á lappir. :)

Búin að tala við fullt af skemmtilegu fólki í dag, hringdi t.d. í Kóala-Björn, sem var á fylleríi uppi í bústað. Alltaf gaman að tala við fullt fólk. ;) Skrítið samt að hugsa til þess að það var mið nótt heima og allir á páskadjammi og ég sat hérna í sólskininu á hádegi að hafa mig í að fara að skrifa um hvort alþjóðastofnanir þurfi enn þjóðríkið. Ahh..já, áhugavert, ég veit.. Gleðilega páska aftur Björn, takk fyrir samtalið, kannski að þú þekkir mig í síma næst! ;) Og mundu eftir kveðjunni til múttu!

Ég er semsagt komin í páskafrí, ljúft líf.. Þarf samt að skrifa eina ritgerð núna um helgina, um efnið að ofan. Ætti ekki að taka langan tíma, bara 700 orð, ég skrifa yfirleitt um 200 í hvert blogg! Veit ekki hvernig þið nennið að lesa þetta.. beyond me.. Á morgun eru svo Sigur Rósar tónleikarnir!!! Jei, er svo spennt! Er búin að mæla mér mót við aðra íslenska stelpu sem býr hérna. Ótrúlegt hvað við hópumst saman erlendis.. Stelpurnar hérna horfðu á mig eins og ég væri vangefin þegar ég sagði þeim að ég væri að fara að hitta stelpu sem ég þekki ekki neitt, bara af því að hún væri íslensk. Svo ég vitni rétt í þær: "Bloody hell, if I met an Aussie overseas I'd run as fast as I could..you people are weird.." En það verður eflaust gaman að hitta Eyrúnu, var ekki svo spennt heldur yfir að fara ein niðrí the Valley, ekki alveg öruggasta hverfið hérna í Brisbane til að vera einn síns liðs... Má reyndar ekki heldur labba ein niðrí Garden City seint á kvöldin, fólk horfir á mig eins og ég sé vangefin ef ég sting uppá því. Ég horfi bara á þau á móti og segi að það sé ekki eins og við búum í Johannesburg eða Kólumbíu, þetta er nokkuð öruggt hérna. En geri þeim samt þann greiða að fara ekki ein út á röltið á kvöldin. Enda alltaf með fólki hvort eð er.

Annars fékk ég páskaeggið mitt sem mamma sendi í gær. Held að það hafi verið markmið póstflutningamannana/kvennanna að rústa því eins mikið og hægt væri. Kom mölbrotið og það hafði bráðnað og harðnað þannig að það var súkkulaðiklessa og allt nammið sem er inní var fast í klessunni. Þurfti að gera dauðaleit að málshættinum, sem var: "Sjaldan er greinin betri en bolurinn." Hefði átt að spurja Einar áðan hvað það þýðir, því ég hef aldrei heyrt þennan málshátt áður.. Einhver? Þýðing? Fatta svona nokkurn veginn hvað það þýðir samt.. er samt greinilega búin að missa tökin á íslenskunni.. ;) Var fyrst svekkt yfir að ég fengi þá ekkert almennilegt páskaegg, en svo fór fólk að birtast hérna hægri vinstri til að færa mér súkkulaði! Mamma hennar Amy gaf mér páskakanínusúkkulaði"egg", Peta líka og líka kassa með tíu eggjum og Amy og ég keyptum okkur kassa með litlum eggjum! Flæðir allt í súkkulaði hérna í nr.35.. Unbelievable.. So no worries mate, nóg af páskasúkkulaði hérna! ;)

Signý kemur aftur í næstu viku, nánar tiltekið þann 19.apríl. Planið er að fjölmenna til Byron Bay yfir næstu helgi (ég, hún, Ólöf og Óskar) og sóla okkur aðeins og djamma. Byron Bay er svona túristastaður, á ströndinni náttúrulega og allir sem hafa farið þangað segja að það sé uppáhaldsstaðurinn þeirra í Ástralíu. Þannig að maður getur ekki annað en hlakkað til þess! Svo gæti verið að ég þurfi að "skreppa" niður til Sydney í næstu viku líka. Maður getur víst ekki kosið í Brisbane, og fjandinn hafi það ef ég ætla ekki að gera mitt til að Árni haldi áfram sem bæjó! Pabbi er líka búinn að pressa mikið á mig að fara til Sydney og kjósa, og ég geri allt fyrir þann gamla. ;) Þannig að ég fer líklega á þriðjudaginn, 1 oghálfur tími í flug, kýs og tek svo lestina til Petu sem verður í sínum heimabæ, Newcastle (einn og hálfur í lest frá Sydney), gisti hjá henni og flýg svo til baka til Brisbane daginn eftir. Húff.. það sem maður leggur ekki á sig fyrir þennan flokk! Ekki nóg að maður hafi handleggsbrotið sig fyrir hann hérna um árið, nú þarf maður að leggja undir sig ferðalög til að styðja hann í þokkabót! Annars held ég að lengsta orð sem ég hafi skrifað sé utankjörfundaratkvæðagreiðsla. Enginn vinnumannaverkamannaskúr, en þetta meikar allavega sens..!

Jæja, þetta var nú ansi skemmtileg frásögn hjá mér, eða þannig... Ætla að hundskast í bækurnar núna, sem væri auðveldara ef norsarinn fyrir neðan væri ekki að spila technotónlist á hæsta.. Spila bara HLH flokkinn á móti, það ætti að kenna honum lexíu!

Gleðilega páska elskurnar mínar! Knúsið hvort annað frá mér og verði ykkur Nóa eggin að góðu!

Kossar og knús frá Brisbane

Andí Mekk

laugardagur, apríl 08, 2006

Things were different then. All is different now. I tried to explain. Somehow.


Loksins kólnaði í Brisbane og ég held að ég sé sú eina sem er í skýjunum með það! Fór niður í ellefu stig í gærnótt og ég stóð úti á svölum og baðaði mig í fersku næturloftinu. Skreið svo undir sæng, svaf í níu tíma og naut þess að vakna ekki í svitabaði til tilbreytingar. ah..ljúfa líf, ljúfa líf..

Vona að veðrið haldist svona, mér finnst þetta alveg fullkomið. Fer uppí 25 á daginn, góð gola til að halda manni freskum og svo er peysuveður á kvöldin sem er alveg nauðsynlegt þegar manni er farið að þykja pirrandi að klæðast einungis hlýrabolum og uppábrettum gallabuxum.

Annars var ástæðan fyrir því að ég var yfirhöfuð vakandi klukkan tvö um nótt á föstudagskvöldi sú að Amy var með Body Shop partí heima hjá okkur í gærkvöldi. Tólf stelpur fylltu stofuna okkar og dekrið hófst! Það kom kona frá body shop heim og skellti á okkur alls kyns kremum og dóterí og íbúðin ilmaði sem aldrei fyrr. Bara kósý. Amy stóð líka í ströngu í eldhúsinu allan daginn þannig að eftir kynninguna belgdum við okkur út og skoluðum kræsingunum niður með (mis)áfengum drykkjum. Vorum svo of afslappaðar til að fara á tjúttið niðrí bæ þannig að ég fór í háttinn um tvöleytið. Og er aktúallí búin að læra smá í dag..believe it or not! Er nefnilega að fara út að borða og í bíó í kvöld þannig að það er best að nýta tímann á meðan maður getur! Er það kannski merki um hvað ég er orðin gömul þegar mér líst betur á að fara í bíó og koma snemma heim heldur en að fara á djammið?? Maður spyr sig...
Tók nokkrar myndir í partíinu (ég veit, ég sökka í myndatökunum hérna, ætla að reyna að bæta úr því..) en nenni ekki að setja þær inn núna því ég þarf að hoppa útí Nightowl og kaupa mér eitthvað í svanginn. Interesting, no? ;)

Hey, ætla að setja inn niðurstöður úr persónuleikakönnun sem ég þurfti að gera, yfir tvöhundruð spurningar, hélt að þetta ætlaði aldrei að enda... Finnst ykkur þetta passa við mig?? (sorry að þetta er á ensku samt..):

Your Personality Type: Jack-of-all-trades
Your well-rounded personality makes you the Jack-of-all-trades. Your type is one of the most difficult to define - you tend to make decisions on a case-to-case basis, rather than going with a knee-jerk reaction. As a result, you are hard to pin down accurately. Your laidback but generally hardworking nature allows you to work in a variety of positions and to get along with a range of people. You appreciate having a balance between an active social and alone time in your life, and only occasionally experience anxiety or stress. You enjoy being around others, but you find that time alone refreshes you both mentally and spiritually. For the most part, you are confident and even-keeled. While you don't allow life to pass you by, you have an appreciation for the natural order of things, and although you accept change, you don't go to great lengths to create it.

Well, things to do, and people to see..
see ya's :)

miðvikudagur, apríl 05, 2006

Nothing brings me down



Góðan dag, góðan dag, glens og grín það er mitt fag,
hopp og hí og trallalí og uppá nefið nú ég sný!
(þetta lag minnir mig alltaf á Nonnsa, bregst ekki! :) )

Hvað segist? Allir í góðu fjöri??

Ég er búin að hafa það ágætt síðustu daga, same old, same old.. Mamma móðgaði mig um daginn, leyfði henni að sjá mig í webcam og hún spurði hvar brúnkan mín væri eiginlega! Maður verður ekki brúnn í fyrirlestrarsölunum, ótrúlegt en satt! Þannig að ég ákvað að taka til minna mála í brúnkudeildinni og skellti mér í sund í fyrsta sinn síðan ég kom. Reyndar þegar ég hugsa útí það, þá held ég að það hafi verið í fyrsta sinn í ca. eitt og hálft ár.. Gott ef síðasta skiptið var ekki bara þegar ég var í Ástralíu í fyrsta skiptið! Mesta furða að ég skyldi enn komast í sundfötin, átti alls ekki von á því.. Og man, hvað maður getur annars verið fljótur að gleyma! Gleymdi því algjörlega að ég kann hreinlega ekki að synda! Enda var sund eini áfanginn sem ég hef verið á mörkunum á að falla í á ævinni! Allt beygja-kreppa-út-saman-dæmið er bara ruglandi. Veit ekki hvað ég á að gera við hendurnar á meðan ég er að einbeita mér að því að ná fótadæminu á hreint þannig að ég lít út eins og híena á ísjaka. Tókst þó að svamla tíu ferðir í fimmtíu metra laug, sem er ekki sem verst miðað við vankunnáttuna á sundsviðinu... Kannski að Unnur vinkona mín, sunddrottning með meiru, myndi senda mér myndskreyttar sund-leiðbeiningar, það myndi eflaust hjálpa þessu litla fatlafóli! ;) Þrátt fyrir byrjendaörðuleikana fór ég aftur daginn eftir, samt mest útaf því að það var óþolandi heitt þann daginn. Æfingin skapar meistarann eins og máltækið segir..!

Annars er merkilegt að ég skuli aðeins blogga þegar ég hef svona milljón aðra hluti á dagskránni.. Ætlaði að vera svo dugleg að fara að læra, en það virðist alltaf eitthvað meira spennandi vera í boði.. Nágrannar, spjall við stelpurnar, eða (og ekki fara með þetta lengra!) Bold and the Beautiful! Já, ég horfði á það í dag.. skemmtilegt að það breytist aldrei neitt í þessum þáttum.. ennþá sama dramað og fyrir fimm árum..
Í gær var mini-tornado (fellibylur) í Brisbane.. frekar skarí sjitt þar sem að ég var ein heima og fannst eins og eldingarnar væru beinlínis úti á svölum.. En ég lifði það af, hafði the O.C. og Galileo til að dreifa huganum ;)
Sjii..verð að fara að læra núna, klukkan er orðin alltof margt miðað við hvað það er mikið eftir og ég þarf að mæta á "fund" í fyrramálið..
xoxo
Andie

sunnudagur, apríl 02, 2006

Life in slow motion


Á í erfiðleikum með að byrja á þessu bloggi. Margt búið að veltast um í kollinum á mér undanfarna daga og ég veit ekki hversu mikið af því ég ætti að deila með ykkur.. Allavega, byrja á gærkvöldinu til að koma mér í gang.. ;)

Við stelpurnar (ég, Jordan, Amy, Peta og Hege) fórum á Comedy Night á Uni barnum í gærkvöldi. Borðuðum þar áður og versluðum nokkrar könnur á barnum.. ;) Og vá, hvað ég hló mikið! Ekkert smá gaman, geðveikt fyndnir gaurar, við förum pottþétt aftur næst því þetta á að vera mánaðarlegur viðburður. Ekki spillti heldur fyrir verðið á barnum, verandi stúdentabar með stúdentaafslætti! Peta sá til þess að ég væri tekin fyrir fyrir my icelandic-ness! Hann spurði nefnilega hvort það væru einhverjir international students á staðnum og hún benti á mig og Hege.. Ýkt fyndið, hún sagði að ég væri Icelandic og maður sá heilann hans alveg vera á fullu að spá hvað það væri eiginlega.. Endaði með því (einhvern vegin svona) að hann spurði hvort við værum olíuland, ég neitaði og hann sagði að við þyrftum þá ekki að hafa áhyggjur af innrás. I guess you had to be there... ;)
Eftir þetta var ákveðið að fjölmenna til Ólafar Höllu, sem var með innflutningspartí í gærkvöldi. Ólöf er semsagt vinkona Signýjar frænku og býr líka í Brisbane. Við hittumst semsagt í fyrsta skipti í gærkvöldi hérna úti og það var ekkert smá frábært að hitta Íslending aftur. Samræðurnar fóru þó fram á ísl-ensku á mestu, þe. ensku þegar aðrir voru nálægt og íslensku þegar slíkar áhyggjur voru óþarfar. Allt í allt, magnað partí, ég skemmti mér rosalega vel, varð alltof drukkin, fór heim, svaf til hálfþrjú í dag og hef ekki opnað bók eftir það. Kenni Ólöfu um þynnkuna, Opal skot eru bara ekki góð hugmynd fyrir fólk á mínum aldri!! ;) Fékk sms frá henni áðan um að koma á markaðinn niðri í South Bank, en ég var á þeim tímapunkti að deyja úr þynnku og gat vart komið mér uppúr rúminu, hvað þá að fara "alla" leið niðrí South Bank. Hefði samt alveg viljað það, á enn eftir að taka svona túristadag á þetta og sjá eitthvað annað en bara Upper Mt. Gravatt (hverfið mitt). Varð líka óendanlega afbrýðisöm útaf íbúðinni hennar, geggjað flott, magnað útsýni og niðrí í South Bank (sem er svona downtown). Og hún borgar minna en ég!! Við vorum allar slefandi yfir þessu við stelpurnar... but whatchagonnado? :)
Horfði á My Girl í þynnkunni, grenjaði yfir henni þangað til ég fékk höfuðverk og er rétt að jafna mig núna.. Ætti að fara að læra, en ætla að nota þá afsökun að peran er sprungin í herberginu mínu sem veldur myrkri sem hjálpar ekki til við lesturinn. Og þið getið gleymt því að ég sitji inná klósetti að lesa námsbækurnar!

Það sem hefur verið að bögga mig hinsvegar síðustu daga er þetta: Önnur stelpan sem ég bý með er mesti rasisti sem ég hef á ævi minni hitt. Komst reyndar að því stuttu eftir að við byrjuðum að búa saman, en hélt einhvern vegin að það væri ekki það "alvarlegt", þe. að það risti ekki það djúpt hjá henni. Reyndar var ég sannfærð um að kærastinn hennar væri mesta fífl í heimi eftir því sem hún sagði af honum, en hugsaði með mér að ég þyrfti nú ekki að hitta hann það oft að það skipti mig máli. Hann er mesta fífl í heimi, það er algjör staðreynd. Kemur ótrúlega illa fram við hana og hún trúir öllu ruglinu sem kemur útúr honum. Meðal þess sem hún sagði okkur af honum á miðvikudagskvöldið (ég, Peta og hún sátum niðri í stofu að spjalla) var að hann hefði sparkað ruslatunnu í heimilislausan mann síðasta laugardagskvöld, bara að gamni. Og að hann skyrpi á alla múslima og hún hló! þegar hún sagði það. Ok, eins og það væri ekki nóg til að ég og Peta værum að kúgast yfir fordómunum og heimskunni, þá fór hún að lýsa sínum skoðunum, sem eru reyndar bara hans skoðanir sem hún kýs að trúa. Meðal þess var þetta: hún hatar frumbyggjana (frumbyggja Ástraliu, sem eru kallaðir aboriginies) af því að foreldrar hennar kenndu henni það, hún var alin upp til að hata þá. Hún hatar alla aðra kynþætti en þann hvíta, sagði t.d. að henni fyndust sambönd fólks af mismunandi kynþáttum óeðlileg og bar því við að það væri svo mikill genamunur milli kynþátta að það væri beinlínis hættulegt. Ok, load of crap, það eru 10 gen af að mig minnir 50.000 sem stjórna litarhætti, sem þýðir að það er 0,0012% munur á kynþáttum. Það er meiri líffræðilegur munur INNAN kynþátta, heldur en á milli þeirra. Og hún er að læra hjúkrun!! Kræst..
Og rúsínan í pilsuendanum, og það sem hefur verið að bögga mig mest undanfarna daga og þetta er það sem hún sagði við mig face to face: (þýtt á ísl of course) "Ég skil ekki af hverju allir þessir útlendingar þurfa að koma hingað til að læra, af hverju geta þeir ekki lært í sínu eigin landi? Ástralía er fyrir Ástrala" ARGGG!! Ég var svo orðlaus að ég gapti bara. Peta vissi ekkert hvað hún átti að segja, horfði bara á hana vantrúuðum augum.
Hún hefur ekki beðið mig afsökunar á að hafa sagt þetta, henni finnst hún örugglega hafa haft fullan rétt á að segja þessum helvítis útlendingi hvað henni fyndist um veru mína hér. Hef síðan talað um þetta við Petu og Amy, sem er hin stelpan sem ég bý með. Spurði hana bara beint út hvort henni fyndist verra að búa með útlendingi, hún horfði á mig eins og ég væri biluð og sagði auðvitað ekki. Hún ætlar að tala við hina stelpuna um það sem hún sagði og sjá hvað kemur útúr því. Við erum reyndar allar stelpurnar sammála um að hún er algjör rasisti og það böggar okkur allar. Hinar non-áströlsku stelpurnar hafa líka fundið fyrir þessari framkomu frá henni, eins og við eigum engan rétt á að vera að koma okkur inn í "hennar" land. Mér finnst þetta svo fáránleg framkoma að ég næ því bara ekki. Hélt alltaf að rasistar (finn ekki betra orð, þó að það sé ekki allt sem hún er, frekar með fordóma útí allt sem er ekki ástralskt) væru að "deyja út". Þe. að fólk á mínum aldri væri nógu upplýst og menntað til að virða allar þjóðir, kynþætti, trúarbrögð og annað. En greinilega ekki. Ég veit að Ástralir eru yfirhöfuð ekki svona, allir sem ég hef kynnst hafa verið svo opnir, tekið mér svo vel og viljað læra sem mest um landið mitt.
Og ég NEITA að láta álit mitt á Áströlum breytast útaf þessari manneskju og fjölskyldu hennar. Og ég NEITA að láta þessa rasista tík (afsakið orðbragðið, en ég er reið) flæma mig út úr minni eigin íbúð.
Og mest af öllu þá NEITA ég að leyfa henni að láta mér líða illa fyrir það sem ég er og hvar ég er. Ég er íslensk, ég er stolt af því og ég læt ekki fáfróða stelpukind hafa stjórn á því hvernig mér líður.
Og hananú!!!