föstudagur, maí 26, 2006

Are you just cool and am I just fake?


Heil og sæl!

Vá..í dag eru nákvæmlega fjórir mánuðir síðan ég yfirgaf klakann góða..finnst reyndar mun lengra síðan, veit ekki með ykkur. Þetta er það lengsta sem ég hef nokkurn tímann verið frá Íslandi..frekar fyndið, þar sem þetta er ekki einu sinni það langur tími. Söknuðurinn er frekar súrrealískt hugtak samt, það er svo sem ekki eins og ég sakni einhvers sérstaklega. Auðvitað vildi ég að ég gæti hitt vini og fjölskyldu, en ég græt mig ekkert í svefn yfir því. Hef reyndar bara grátið einu sinni á síðustu fjórum mánuðum og þá komu bara tvö tár. I'm so tough.. ;) Neinei, svona í alvöru, þá var ég að spá í þessu um daginn, söknuðinum þeas. Hef ekki fundið neitt átakanlega fyrir honum í þessari "ferð" minni. Þegar ég var í heimsreisunni þá saknaði ég fólksins heima miklu meira, kannski vegna þess að ég var ein þá, sem ég er ekki núna..ekki beint þeas. Hugsa líka miklu minna heim hérna, hef auðvitað miklu meira af öðrum hlutum til að hugsa um, eins og td. skólann! Það er líka bara auðveldara að hugsa ekki heim heldur en að velta sér uppúr því hvað allir séu að gera og hvað mig langi mikið til að knúsa litlu dúllurnar mínar og svoleiðis hluti. Annars eru það meira hversdagslegu hlutirnir sem maður saknar, eitthvað sem var hluti af daglegu lífi áður en ég fór. Eins og að geta farið á rúntinn með Unni, kíkt á Paddy's með Hjördísi, kíkt í heimsókn til Ingu eða bara það að vita að mamma yrði tilbúin með kvöldmatinn og þurfa ekki að spá í því sjálf! En daglegt líf er líka í föstum skorðum hérna, þannig séð ekki öðruvísi, bara með öðru fólki. :) Niðurstaða: ég sakna ykkar, en reyni að spá sem minnst í því. :) Hlakka samt mikið til að sjá ykkur aftur!

Annars vorum við með smá partí í gærkvöldi hjá Hege. Röltum alla leið yfir Gaza-svæðið (svo nefnt af okkur vegna fjölda austurlandabúa í þeim íbúðum) og skelltum okkur í Singstar! Endalaust gaman alltaf í Singstar, því verður seint neitað. Þeim fannst sérstaklega fyndið að heyra mig rappa með íslenskum hreim, það vakti mikla lukku... Planið var svo að kíkja í borgina, en vegna biðtímans eftir leigubíl var ákveðið að halda partíinu bara áfram í íbúðinni okkar (herbergisfélaga mínum til mikillar ánægju, eða þannig!) Fundum okkur nokkra átján ára pilta á leiðinni yfir og drógum þá með okkur. Maður finnur virkilega fyrir aldrinum þegar maður er með svona ungu fólki, það get ég sagt ykkur! Allir voða spenntir yfir því að mega loks drekka löglega, eitthvað sem ég hef mátt í sex ár hér í Ástralíu! En þetta var mjög skemmtilegt kvöld, ég gaf þeim íslenskan Apollo-lakkrís og Bingókúlur sem ég fékk sent fyrr í vikunni frá múttu ásamt íslenskum slúðurblöðum, og flestum fannst þetta bara ágætt sælgæti. Eða þá að þau þorðu ekki að dissa það fyrir framan mig! ;)

Ekkert djamm á næstunni hjá mér, síðustu vikurnar á önninni eru nefnilega frekar annasamar eins og margir kannast við. Er samt búin að láta stelpurnar lofa uppá djamm sautjánda júní! Ekki annað hægt en að djamma á þeim degi!

Jæja, senn líður að kvöldmat og Nágrönnum, þetta tvennt helst yfirleitt í hendur hérna... ;)
Knús og kram
Andie